Lögreglan á Suðurlandi kærði 70 ökumenn fyrir hraðakstur í umdæmi sínu í liðinni viku.
Hraðast ók íslenskur karlmaður fæddur 1975 en bifreið hans mældist á 157 km/klst hraða á Suðurlandsvegi í Flóa. Annars er listinn yfir ríkisfang þeirra sem óku of hratt langur en ökumennirnir eru frá tuttugu þjóðlöndum, meðal annars frá Litháen, Kína, Ítalíu, Malasíu, Indlandi og Albaníu.
Tveir eru grunaðir um ölvun við akstur. Annar þeirra var stöðvaður í Vík í gærkvöldi en sá er erlendur og á ferðalagi hér um landið. Íslenskur ökumaður var færður til blóðsýnatöku á Kirkjubæjarklaustri þann 10. október eftir að lögreglumenn höfðu afskipti af honum á Suðurlandsvegi.
Þá voru þrír aðilar stöðvaðir í liðinni viku grunaðir um að hafa ekið undir áhrifum fíkniefna. Tveir þeirra voru innanbæjar á Selfossi og sá þriðji á Biskupstungnabraut. Tveir þessara þriggja reyndust sviptir ökurétti vegna fyrri brota.