Tryggingafélagið Sjóvá gaf á dögunum útgerðarfyrirtækinu Hafnarnesi VER hf. í Þorlákshöfn Björgvinsbelti sem komið verður fyrir í Friðrik Sigurðssyni ÁR 17.
Björgvinsbeltið hefur margsannað gildi sitt við björgun mannslífa. Það þykir einstaklega traust og einfalt í notkun, sem er afar mikilvægur kostur við björgun.
Beltið var endurhannað árið 2012 og hefur Slysavarnafélagið Landsbjörg einkaleyfi á sölu þess á öllum Norðurlöndunum og Bretlandseyjum. Sjóvá fjármagnaði endurhönnun beltisins fyrir hönd Landsbjargar.
Björgvinsbeltinu fylgja kastlínur, það flýtur og hægt er að bjarga tveimur mönnum með því í einu beri svo undir. Þá er hægt að kasta Björgvinsbeltinu lengra og af meiri nákvæmni en bjarghring. Ekki er þó ætlast til að beltið komi í staðinn fyrir annan björgunarbúnað, heldur sem viðbótarbúnaður um borð í skipum, við hafnir og á fleiri stöðum.