Nýlega buðu sjúkraflutningamenn Heilbrigðisstofnunar Suðurlands öllum þeim fjölskyldum sem þeir hafa styrkt síðustu árin til grillveislu í Björgunarmiðstöðinni á Selfossi.
Undanfarin ár hafa tólf langveik börn fengið fjárstyrk og gjafir frá sjúkraflutningamönnunum á aðfangadag. Fjárstyrkirnir eru afrakstur af dagatalssölu sjúkraflutningamannanna og nema þeir nú samtals fjórum milljónum króna.
„Það var mjög gaman að sjá hversu margir sáu sér fært að koma. Einnig var okkar fólki, slökkviliði og lögreglu boðið með sínar fjölskyldur. Einar Mikael töframaður skemmti hópnum og grillaðar voru nokkurhundruð pylsur. Þetta var frábær dagur,“ sagði Stefán Pétursson, sjúkraflutningamaður, sem átti hugmyndina að deginum, í samtali við Sunnlenska.
Stefán tók myndirnar hér að neðan og tala þær sínu máli.