Dagatal Félags sjúkraflutningamanna í Árnessýslu 2015 hefur runnið út eins og heitar lummur síðustu daga og nú fer hver að verða síðastur að krækja sér í eintak.
„Eins og venjulega fer ágóðinn af sölunni í að styrkja fjölskyldur langveikra barna og einnig í styrktar- og áfallasjóð sjúkraflutningamanna í Árnessýslu,“ sagði Stefán Pétursson, sjúkraflutningamaður, í samtali við sunnlenska.is. Undanfarin ár hafa sjúkraflutningamennirnir heimsótt fjölskyldurnar á aðfangadag og afhent styrkina og á því verður engin breyting í ár.
„Við ætlum að styrkja tvær fjölskyldur í ár, en þetta er sjöunda árið í röð sem við gefum út dagatal. Okkur hefur alltaf verið vel tekið og ekki útlit fyrir annað en að upplagið klárist í ár eins og áður,“ sagði Stefán ennfremur.
Dagatalið 2015 er þó með breyttu sniði því að þessu sinni er kvikmyndaþema í myndunum og eru þær margar hverjar stórskemmtilegar.
Dagatalið kostar 1.500 krónur og geta áhugasamir nálgast dagatalið hjá sjúkraflutningamönnunum sjálfum en þeir hafa verið á ferðinni í Bónus á Selfossi og í Hveragerði en einnig er hægt að líta við í Björgunarmiðstöðinni á Selfossi til að ná sér í eintak.