Sjúkraþjálfun Selfoss fær nýja eigendur um áramótin. Gunnar R. Leifsson, sjúkraþjálfari og fráfarandi eigandi, hóf starfsemi árið 1987 en stofan hefur verið til húsa við Austurveg 9 frá árinu 2004.
Kaupendur eru hópur sjúkraþjálfara; þau Hildur Grímsdóttir, Nína Dóra Óskarsdóttir og Stefán Magni Árnason ásamt eigendum Tinds Sjúkraþjálfunar í Hveragerði þeim Andra Helgasyni, Halldóri R. Halldórssyni og Herdísi Önnu Magnúsdóttur.
„Það er mikil tilhlökkun að taka við svona rótgrónni og flottri stofu. Það er mikil reynsla og þekking til staðar í bland við nýja strauma í sjúkraþjálfunarfaginu og okkur hlakkar mikið til að vinna með þeim flotta hópi starfsfólks sem er á staðnum. Við stefnum á að bæta enn frekar það flotta starf sem hefur verið unnið til þessa og veita framúrskarandi heilbrigðisþjónustu á svæðinu,“ segir Stefán Magni Árnason, framkvæmdastjóri.
Nýir eigendur taka við rekstrinum 1. janúar næstkomandi og frekari frétta varðandi starfsemina má vænta á komandi vikum.