Skaftárhlaup að hefjast

Skaftárhlaup. Mynd úr safni. sunnlenska.is/Sigurður Hjálmarsson

Rafleiðni í Skaftá hefur hækkað hægt og rólegt síðan í gær kvöld og vatnshæð og rennsli árinnar við Sveinstind aukist síðustu klukkustundir. Ekki er talið að leysing á jökli eða úrkoma valdi þessum breytingum heldur benda þessar athuganir til þess að Skaftárhlaup sé að hefjast.

Gögn gefa mögulega til kynna að upptök hlaupsins séu í Vestari-Skaftárkatli. Síðast hljóp úr katlinum í september 2021 en hlaupin úr vestari katlinum eru að jafnaði minni en hlaupin úr þeim eystri.

Rennsli við Sveinstind var um 149 m3/s kl. 20:30 í kvöld en búist er við að hámarksrennsli í þessu hlaupi fari ekki yfir 750 m3/s. Þó er ekki útilokað að vatn hlaupi úr Eystri-Skaftárkatli í kjölfarið.

Brennisteinsvetni berst með hlaupvatninu þegar það kemur undan jökli og er ferðafólki eindregið ráðlagt að halda sig fjarri farvegi Skaftár ofan Skaftárdals svo og jöðrum Skaftárjökuls, Tungnárjökuls og Síðujökuls á meðan hlaupið stendur yfir.

Bakgrunnsupplýsingar og upptök Skaftárhlaupa
Skaftárkatlarnir eru tveir, eystri og vestari, og eru í vestanverðum Vatnajökli. Þeir myndast þar vegna jarðhita sem bræðir jökulbotninn og vatns sem safnast þar saman. Þegar vatnsþrýstingur er orðinn það hár að farg jökulsins nær ekki að halda aftur af því hleypur það undan kötlunum. Hlaup úr Eystri-Skaftárkatli eru að jafnaði stærri en hlaupin úr vestari katlinum. Skaftárhlaup eins og þau koma fram í dag hófust árið 1955 en síðan þá er vitað um 58 jökulhlaup í Skaftá. Að jafnaði hleypur úr hvorum katli fyrir sig á tveggja ára fresti.

Fyrri greinAndri bætti eigið met í Brúarhlaupinu
Næsta greinHafþór jafnaði í uppbótartímanum