Rennsli í Skaftá við Sveinstind heldur áfram að vaxa en hefur verið í hægum vexti það sem af er degi og mælist nú tæplega 180 m3/sek. Töluverð óvissa um áframhald hlaupsins og mögulega stærð þess, segir í tilkynningu frá Veðurstofunni.
Rennsli í Eldvötnum, nærri þjóðvegi 1, er einnig farið að vaxa jafnt og þétt. Að svo stöddu hefur hlaupið ekki áhrif á helstu vegi á svæðinu, en áfram verður fylgst náið með þróun hlaupsins.
Um þrjú ár frá síðasta hlaupi úr Vestari-Skaftárkatli sem er óvenju langur tími milli hlaupa. Því er líklegt að þetta hlaup eigi upptök sín þar en það hefur þó ekki enn fengist staðfest. Vegna þessa er töluverð óvissa um áframhald hlaupsins og mögulega stærð þess. Þekkt eru hlaup úr Vestari-Skaftárkatlinum sem ekki ná miklu hámarksrennsli en vara lengi, í allt að tvær vikur. Mögulegt er að slíkt hlaup sé í gangi núna en það er þó enn of snemmt að fullyrða til um það.
Ríkislögreglustjóri í samráði við lögreglustjórann á Suðurlandi hefur lýst yfir óvissustigi Almannavarna vegna Skaftárhlaups og er ferðafólki eindregið ráðlagt að halda sig fjarri farvegi Skaftár ofan Skaftárdals svo og jöðrum Skaftárjökuls, Tungnárjökuls og Síðujökuls á meðan hlaupið stendur yfir.