Fyrr í dag voru starfsmenn Veðurstofunnar í feltvinnu á Vatnajökli og þeir staðfestu að Skaftárhlaupið sem hófst á sunnudag kom úr vestari katlinum.
Rennsli Skaftár við Sveinstind heldur áfram að sjatna eftir að hámarki var náð þar snemma á mánudag. Veðurstofan telur rennslið við Sveinstind líklega ofmetið vegna íss í árfarveginum en rennslið við Skaftárdal var í dag um 196 rúmmetrar á sekúndu og fer hægt minnkandi.
Úrkoma síðasta sólarhringinn hefur hjálpað til við að viðhalda hámarki hlaupsins í Eldvatni, Kúðafljóti og Skaftá. Gera má ráð fyrir að hlaupið muni halda áfram að sjatna á næstu dögum.
Engin merki um hlaup úr hinum katlinum
Eystri ketillinn er einnig fullur af vatni og er löngu kominn á tíma. Síðasta hlaup úr eystri katlinum var í júní 2010 og stöku sinnum hafa báðir katlarnir tæmst með nokkurra vikna millibili.
Vatnssöfnun í Eystri-Skaftárkatlinum er nokkuð jöfn, því er langur tími á milli flóða jafnan ávísun á stór flóð. Hámarksrennsli í hlaupum úr eystri katlinum hefur mest orðið um 1.500 rúmmetrar á sekúndu við Sveinstind. Skaftá getur vaxið úr eðlilegu rennsli í 1.000 til 1.500 rúmmetra á sekúndu á innan við sólarhring. Eins og staðan er núna eru þó engin sjáanleg merki þess að hlaup sé að hefjast úr eystri katlinum.
Starfsmenn Veðurstofu fylgjast náið með þróuninni.