Skaftárhlaupi að ljúka

Í Skaftárdal. sunnlenska.is/Sigurður Hjálmarsson

Síðustu tvo daga hefur rennsli í Skaftá farið lækkandi og mælist um 100 m3/s við Sveinstind. Vatnsmagn í ánni er því að verða svipað og það var áður en hlaup hófst þann 20. ágúst og atburðinum því að ljúka.

Í þessu hlaupi mældist rennsli í Skaftá við Sveinstind lengst af á milli 180 og 220 m3/s sem er mjög lágt rennsli fyrir hlaup úr Eystri Skaftárkatli. Það eru ekki nema 12 mánuðir frá seinasta hlaupi meðan að algengast er að það líði 2 til 3 ár á milli hlaupa frá Eystri-Skaftárkatli.

Í síðasta hlaupi, haustið 2023 mældist mesta rennsli við Sveinstind tæplega 750 m3/s og er það þó mun minna en í stærstu hlaupum frá Eystri Skaftárkatli. Þau hlaup sem hafa komið þegar einungis eitt ár hefur liðið frá síðasta hlaup hafa verið áþekk þessu hlaupi með lágu hámarksrennsli en vörðu lengur.

Þess ber að geta að óvenju langt er nú frá seinasta hlaupi úr Vestari-Skaftárkatlinum, sem hljóp síðast haustið 2021. Að meðaltali hafa verið um tvö ár á milli hlaupa þaðan.

Fyrri greinLokatónleikar sumarsins á Kvoslæk
Næsta greinSelfoss fallið í 2. deild