Á samkomu sem haldin var síðastliðinn fimmtudag vegna formlegrar opnunar brúa yfir Núpsvötn og Hverfisfljót, afhenti Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, Skaftárhreppi gjafabréf að gömlu stálgrindarbrúnni yfir Djúpá.
Gamla brúin yfir Djúpá var byggð árið 1952 en var aflögð þegar ný brú yfir ána var byggð þar sem Þjóðvegur 1 liggur nú.
Vegagerðin hefur nú gefið Skaftárhreppi brúna til eignar og umráða og er hún gefin og afhent sem göngubrú yfir Skaftá til þess að tengja saman stígakerfi þéttbýlisins við Kirkjubæjarklaustur og gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs.
Nánar verður gengið frá skilmálum í tengslum við afhendingu brúarinnar í sérstöku samkomulagi á milli aðila.