Skaftárhreppur í fyrsta áfanga

Kirkjubæjarklaustur. sunnlenska.is/Sigurður Hjálmarsson

Þórdís Kolbrún Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, mun leggja til þriggja ára átak í að flýta þrífösun rafmagns í væntanlegri fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2020-2024.

Samkvæmt núgildandi áætlunum verður þrífösun ekki lokið fyrr en eftir 16 ár eða árið 2035.

Tillagan gengur út á breytta forgangsröðun og aukið fjármagn, um 80 milljónir króna á ári í þrjú ár. Í stað þess að forgangsraða eftir aldri núverandi raflína og álagi á þær verði einnig horft til þess hve mikil þörf er fyrir þrífösun og hvort samlegðaráhrif séu með áætlunum um lagningu ljósleiðara.

Í þessum þriggja ára áfanga, árin 2020-2022, verður lögð áhersla á að ljúka þrífösun á tveimur svæðum: Skaftárhreppi og Mýrum.

Skaftárhreppur er eina sveitarfélagið á Suðurlandi sem ekki nýtur þriggja fasa rafmagns. Sveitarfélagið er hið næststærsta á landinu að flatarmáli og er skilgreint sem brotthætt byggð. Mikill ferðamannastraumur á svæðinu veldur álagi á innviði.

„Þessi endurnýjun á dreifikerfinu þjónar bæði umhverfinu og atvinnulífi en lengi hefur verið kallað eftir því að hún gengi hraðar fyrir sig,“ segir Þórdís Kolbrún. „Ég tel því mikilvægt að setja aukinn kraft í hana og einnig að tekið sé tillit til fleiri þátta við forgangsröðun verkefna til að tryggja að fjármunum sé varið með sem skynsamlegustum hætti.“

Fyrri greinBogfiminámskeið á Hvolsvelli
Næsta greinSelfoss fékk sex mörk á sig