Átta liða úrslit í spurningakeppni átthagafélaganna fóru fram í kvöld í Breiðfirðingabúð í Reykjavík. Skaftfellingar eru komnir í undanúrslitin en Árnesingar féllu úr leik.
Lið Árnesingafélagsins laut í lægra haldi fyrir öflugu liði Breiðfirðingafélagsins, 19-8, en Breiðfirðingar voru reyndar á heimavelli. Jón M. Ívarsson frá Vorsabæjarhóli í Gaulverjabæjarhreppi kom nú inn í liðið í stað Sigmundar Stefánssonar.
Skaftfellingar náðu hins vegar að slá út Ólaf Helga Kjartansson, sýslumann Árnesinga og félaga hans í liði Áttahagfélags Sléttuhrepps, 14-12, í spennandi viðureign.
Lið Dýrfirðinga og Norðfirðinga komust einnig í undanúrslit og munu eigast þar við en Skaftfellingar keppa þar við Breiðfirðinga. Undanúrslit verða 11. apríl.