Suðurlandsvegur er lokaður austan við Vík vegna jökulhlaups í ánni Skálm í Álftaveri. Mikið vatn flæðir yfir veginn og er mikið álag á brúnni yfir Skálm.
Töluverður fjöldi fólks er á svæðinu að sögn Marinó Fannars Garðarssonar, tíðindamanns sunnlenska.is á svæðinu en lögreglan er á staðnum og hefur lokað veginum á milli Víkur og afleggjarans niður í Álftaver. Starfsmenn Vegagerðarinnar eru vestan við brúna og fylgjast með því hvernig hlaupinu vindur fram. Marinó telur að nú um klukkan tvö hafi aðeins lækkað í ánni aftur, það sé hætt að flæða yfir brúna en það flæði yfir vegin á um 500 m kafla austan við hana.
Síðasta stóra jökulhlaup í Skálm varð árið 2011 en kunnugir staðháttum sem Marinó hefur rætt við á árbakkanum segja að þetta sé töluvert stærri viðburður og enn sé mikið vatn ofan þjóðvegarins þar sem áin hefur breitt úr sér á söndunum fyrir neðan jökul. Ummerki í kringum brúna beri hins vegar með sér að flóðið hafi komið með hvelli.
Veðurstofan varaði við aukinni rafleiðni í ám umhverfis Mýrdalsjökul í morgun og taldi líklegt að um væri að ræða leka af jarðhitavatni undan jöklinum.
Myndirnar hér fyrir neðan tók Marinó Fannar Garðarsson fyrir sunnlenska.is.
Fólki er ráðlagt frá að vera á ferli nærri upptökum Múlakvíslar og við Kötlujökul.