Dýpkunarskipið Skandia sigldi inn í Vestmannaeyjahöfn í kvöld eftir sex daga siglingu til Íslands frá Danmörku.
Skandia mun hefja dýpkunarframkvæmdir í Landeyjahöfn um leið og veður leyfir en skipið er mun öflugra dæluskip en Perlan, sem unnið hefur að sanddælingu í Landeyjahöfn frá því í haust.
Íslenska gámafélagið hefur Skandia á leigu og gerir samningur félagsins við Siglingamálastofnun ráð fyrir því að Skandia verði til taks í Landeyjahöfn fram í apríl.
Skandia á að geta unnið í allt að tveggja metra ölduhæð og á að geta tryggt að dýpi við Landeyjahöfn eigi ekki að koma í veg fyrir að Herjólfur geti siglt inn í höfnina næstu mánuðina.
Skipið verður í Vestmannaeyjum fram á vorið þegar það er ekki í vinnu í Landeyjahöfn. Hluti áhafnarinnar hér við land verður íslenskur en skipið siglir undir dönsku flaggi.