Uppnám varð í kjördeild 1 í Vallaskóla á Selfossi í hádeginu í dag þegar símtæki, sem skannar rafræn skilríki, hvarf úr kjördeildinni.
„Röðin var búin að vera stopp í tíu mínútur og svo kemur dyravörður fram og segir að þau séu í vandræðum því einhver hefði tekið skannann. Þá var aðeins hægt að hleypa þeim inn til að kjósa sem höfðu hefðbundin skilríki,“ sagði Guðmundur Pálsson í samtali við sunnlenska.is, en hann var einn þeirra sem beið í röðinni og gat svo kosið með hefðbundnum skilríkjum.
Skanninn er símtæki og segir Steinunn Erla Kolbeinsdóttir, sem situr í yfirkjörstjórn Sveitarfélagsins Árborgar, að málið hafi leyst farsællega. Kjósandi hafi einfaldlega tekið símann í misgripum og skilað honum skömmu síðar. Enginn annar hugbúnaður sé á tækinu og fleiri skannar séu tiltækir á staðnum.
Samkvæmt upplýsingum frá yfirkjörstjórn í Suðurkjördæmi er kjörsókn svipuð um miðjan dag í dag og hún var í síðustu alþingiskosningum en þá höfðu rúmlega 31,5% kjósenda greitt atkvæði.