Skartaði glæsilegum faldbúning á kjörstað

Eyrún Olsen á kjörstað við Vallaskóla. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Það voru langar raðir á kjörstað í Vallaskóla á Selfossi um miðjan dag í dag. Þrátt fyrir það var létt yfir fólki en enginn kjósandi geislaði jafn mikið og Eyrún Olsen, sem mætti á kjörstað í glæsilegum faldbúning af eldri gerð.

„Það er alltaf stemning að mæta á kjörstað og ég ólst upp við það að sýna því virðingu og að þetta væru ekki sjálfsögð mannréttindi. Hluti af því að sýna deginum virðingu er að klæða sig upp og ég geri það ávallt á þennan hátt,“ sagði Eyrún í samtali við sunnlenska.is.

Eyrún saumaði búninginn sjálf og er óhætt að segja að handverkið hafi vakið athygli annarra kjósenda sem vildu margir skoða búninginn.

„Ég saumaði hann sjálf, því mig hafði alltaf langað til að eiga búning. Þannig að ég fór á námskeið hjá Hildi Rosenkjær í Annríki og hún sníður allt upp í hendurnar á manni, kennir manni að þræða nál og hún hjálpaði mér þangað til ég var búin og búningurinn fullkláraður,“ bætti Eyrún við.

Eyrún var búin að ákveða hvar atkvæði sitt myndi falla áður en hún mætti á kjörstað. „Að sjálfsögðu, ég ætla að kjósa rétt,“ sagði hún og hló.

Þess má til gamans geta í lokin að í fyrramálið kl. 11:00 verður þjóðbúningamessa með þátttöku Annríkis í Hafnarfjarðarkirkju og þangað ætlar Eyrún að mæta og eru allir þeir sem eiga búninga eru hvattir til að skarta þeim á þessum hátíðisdegi.

Þetta glæsilega handverk vakti mikla athygli annarra kjósenda. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinSkanni hvarf úr kjördeild
Næsta greinEngin atkvæði til Þórsara