Skartgripaþjófur braust inn í tvö hús á Selfossi

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Brotist var inn í að minnsta kosti tvö íbúðarhús á Selfossi í gærkvöldi og þaðan stolið skartgripum en önnur verðmæti látin vera.

Innbrotsþjófurinn spennti upp lokaða og læsta glugga í húsunum, við Aðaltjörn og Laxabakka, og voru bæði innbrotin framin einhvern tímann á milli kl. 17:30 í gærkvöldi og 1 í nótt.

Margrét Magnúsdóttir, sem býr í húsinu við Aðaltjörn, segir í samtali við sunnlenska.is að aðkoman hafi verið ömurleg. Gluggi í svefnherbergi var spenntur upp og þjófurinn hvarf á braut út um útihurðina með nánast alla skartgripi Margrétar.

Aðkoman var svipuð á Laxabakka, búið að róta í öllum kommóðum og hirslum, eldhússkápum, fataskápum og skúffum. Þar var stolið þekktum skartgripamerkum en aðrir skartgripir, raftæki og gjafabréf látin vera.

Ekki náðist í lögregluna á Suðurlandi við vinnslu fréttarinnar en á Facebooksíðunni Íbúar á Selfossi er fólk hvatt til að skoða hjá sér öryggismyndavélar og hafa samband við lögregluna ef það hefur orðið vart við grunsamlegar mannaferðir.

Fyrri greinSkemmukönguló skaut mönnum skelk í bringu
Næsta greinStefán Þór kveður uppeldisfélagið