Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands og verndari skátahreyfingarinnar afhenti í dag átján skátum frá sex félögum Forsetamerkið við hátíðlega athöfn í Bessastaðakirkju.
Þar af voru sex skátar úr Skátafélaginu Stróki Hveragerði sem fengu þessa æðstu viðurkenningu skáta á Íslandi.
Merkið hefur verið veitt árlega síðan 1965 og táknaði í upphafi lok dróttskátaþjálfunarinnar. Frá árinu 2008 eru það rekkaskátar sem þiggja merkið úr hendi forseta Íslands.
Í umsóknum sínum um Forsetamerkið þurftu skátarnir að gera grein fyrir skátaferli sínum og skrifa hugleiðingar um hvað skátastarfið hafi kennt þeim, hvaða upplifun standi uppúr og hvaða tilfinningar tengist skátastarfinu þeirra.
Skátarnir í Hveragerði sem hlutu þessa viðurkenningu eru Agnes Ósk Hreinsdóttir, Elva Dögg Káradóttir, Rakel Fríða Jósefsdóttir, Jörvar Ísberg, Leó Vilberg Baldursson og Vilhjálmur Snær Ólason.
Eftir að athöfninni lauk var haldin móttaka í skátaheimilinu í Hveragerði.