Skeiða- og Gnúpverjahreppur eins og stormsveipur á toppinn

Sylvía Karen Heimisdóttir, sveitarstjóri Skeiða- og Gnúpverjahrepps og Ásta Stefánsdóttir, sveitarstjóri Bláskógabyggðar tóku á móti viðurkenningunni fyrir hönd sinna sveitarfélaga. Ljósmynd/Sveitarfélag ársins

Skeiða- og Gnúpverjahreppur fékk hæstu einkunn í vali á þeim sveitarfélögum sem hljóta nafnbótina Sveitarfélag ársins 2024 en úrslitin voru tilkynnt á Hilton Reykjavík Nordica í dag.

Fjögur sveitarfélög hlutu nafnbótina í ár og eru það Skeiða- og Gnúpverjahreppur með 4.448 stig, Sveitarfélagið Skagaströnd með 4.397 stig, Bláskógabyggð með 4.275 stig og Sveitarfélagið Vogar með 4.142 stig.

Útnefningin er byggð á grunni niðurstaðna viðhorfskönnunar félagsfólks tíu bæjarstarfsmannafélaga hjá sveitarfélögum á þeirra félagssvæðum og var könnunin gerð í samstarfi við Gallup. Þetta er þriðja árið í röð sem slík könnun er gerð og þess má geta að Bláskógabyggð hefur fengið viðurkenningu á hverju ári.

Skeiða- og Gnúpverjahreppur með hæstu einkunn í sjö flokkum af níu
Segja má að Skeiða- og Gnúpverjahreppur hafi komið sem stormsveipur inn á listann í ár. Sveitarfélagið hefur ekki áður náð inn á lista fjögurra efstu í könnuninni en fór nú beint í efsta sæti stigalistans. Skeiða- og Gnúpverjahreppur var með hæstu einkunn allra sveitarfélaganna í sjö flokkum af níu sem spurt var um þ.e. í flokkunum stjórnun, starfsandi, launakjör, sjálfstæði í starfi, ímynd sveitarfélags, ánægja og stolt og jafnrétti.

Tilgangurinn með könnuninni er að hvetja stjórnendur sveitarfélaga til að veita starfsumhverfi meiri athygli og ráðast í umbótaverkefni þar sem þess er þörf. Markmiðið er einnig að niðurstöðurnar skapi almenna umræðu um starfsumhverfi og stjórnun á vinnustöðum, félagsfólki stéttarfélaganna til hagsbóta. Ekki síst er tilgangurinn að veita góðum vinnustöðum viðurkenningu fyrir að hlúa vel að starfsfólki.

Fyrri greinKjördæmisþing Sjálfstæðisflokksins á Selfossi