Skeiða- og Gnúpverjahreppur kærir virkjanaleyfi Búrfellslundar

Vindorkuverið við Vaðöldu séð frá Búðarhálsvegi. Mynd/Landsvirkjun

Skeiða- og Gnúpverjahreppur lagði í dag inn kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála þar sem farið er fram á að virkjunarleyfi sem Orkustofnun gaf út þann 12. ágúst fyrir 120 MW Búrfellslundi verði fellt úr gildi.

Í tilkynningu frá sveitarfélaginu segir að það sé mat Skeiða- og Gnúpverjahrepps að málsmeðferðin á öllum stigum málsins sé ekki í samræmi við lög. Þar er átt við afgreiðslu Alþingis, málsmeðferð Skipulagsstofnunar ásamt umfjöllun Orkustofnunar áður en virkjanaleyfið var gefið út.

Eins og kemur fram í kærunni, þá hefur sveitarfélagið mótmælt fyrirhuguðum Búrfellslundi á öllum stigum í málsmeðferðinni frá því Alþingi tók ákvörðun um að setja Búrfellslund í nýtingarflokk í rammaáætlun í júní 2022.

„Mikilvægt er að uppbygging orkumannvirkja sé unnin í sátt og samráði við nærsamfélagið og nauðsynlegt er að klára stefnumörkun í vindorku ásamt tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga áður en fyrsta vindorkuverið verður byggt á Íslandi,“ segir í tilkynningu frá Skeiða- og Gnúpverjahreppi.

Fyrri grein„Afslappaðir og heimilislegir tónleikar, þar sem gæti brostið á með spjalli“
Næsta greinKrambúðin býður betri kjör á nauðsynjavörum fyrir heimafólk