Skemmdarvargar voru á ferð á Kiðjabergsvelli í nótt þar sem Íslandsmótið í golfi fer nú fram.
Þeir gerðu sér það að leik að troða bjórdósum ofan í holuna á 7. flötinni og tröðkuðu allt í kringum hana og eyðilögðu.
Þetta varð til þess að vallarstarfsmenn urðu að færa holuna, af svæði þrjú á flötinni og yfir á svæði fjögur. Ekki er vitað hverjir voru þarna að verki.
Starfsmenn vallarins taka nýjar holur á hverju kvöldi fyrir næsta keppnisdag og var búið að ákvaða allar staðsetningar fyrir hvern mótsdag og prenta það inn í skorkortin sem keppendur fá.