Skemmtileg og opinská bók fyrir alla foreldra

„Bókin okkaR er fyrsta alíslenska bókin um allt sem viðkemur getnaði, meðgöngu, fæðingu og sængurlegu,“ segir Andrea Sóleyjar- og Björgvinsdóttir, höfundur bókarinnar og móðir þriggja stelpna.

Þessa dagana stendur yfir söfnun á vefsíðunni Karolina Fund fyrir útgáfu bókarinnar. Andrea segir að margt hafi gengið á þessi ár sem verkið hafi verið í vinnslu en nú sé komið að uppsetningu og prentun.

Bókin okkaR er tímalaust uppfletti-rit, en jafnframt skemmtileg og opinská bók sem svalar þorsta þeirra sem vilja verða, ætla að verða eða eru þungaðar! Bókin okkaR verður einnig uppfull af reynslusögum kvenna, góðum ráðum og frásögnum af skemmtilegum atvikum sem foreldrar hafa upplifað,“ segir Andrea og bætir því við að bókin sé fyrir alla verðandi og verandi foreldra.

Aðspurð hvernig það hafi komið til að gera bók af þessu tagi, segir Andrea að hugmyndin kom upp fyrir tíu árum síðan þegar hún gekk með yngstu stelpuna sína. „Mér fannst vanta efni um þetta ferli svo ég ákvað bara að byrja sjálf að skrifa. Svo vatt hugmyndin upp á sig og ég fékk til liðs við mig ljósmyndara og ljósmóður.“


Andrea Sóleyjar- og Björgvinsdóttir ásamt dætrum sínum.

Auk Andreu standa Aldís Pálsdóttir ljósmyndari og Hafdís Rúnarsdóttir ljósmóðir að bókinni. „Aldís hefur tekið ofboðslega fallegar myndir fyrir bókina meðal annars af þunguðum konum úti í íslenskri náttúru, getnaði, fæðingu og ungabörnum. Hafdís sér svo um allt fræðilegt efni í bókinni og svarar algengum spurningum,“ segir Andrea.

Meðganga bókarinnar hefur verið nokkuð löng. „Okkur langaði helst að gefa bókina sjálfar út. Við vorum hins vegar komnar með útgáfusamning sem gekk síðan ekki upp og því er gleðiefni fyrir okkur að söfnun er hafin svo við getum loksins fætt þessa fallegu bók,“ segir Andrea að lokum.

Hér má svo finna allar nánari upplýsingar um söfnunina.

Fyrri greinEinar Már, borgfirskar utangarðskonur og fleiri
Næsta greinAukum eldvarnir á aðventunni