Sumarlestur var haldinn í Bókasafni Árborgar í júní í tuttugasta sinn. Rúmlega fimmtíu krakkar skráðu sig og mættu reglulega í safnið en þess má geta að sumarlestrarnámskeiðið er ókeypis fyrir börn í Árborg.
Þema sumarlestrar þetta sumarið var Thorbjörn Egner: dýr, fólk og ræningjar en Egner hefði orðið 100 ára þann 12. desember 2012.
Safnið fékk góðar heimsóknir í sumarlesturinn s.s. Þórhall Sigurðsson frá Þjóðleikhúsinu en hann fræddi krakkana um leikhús fyrir börn og kom með margt skemmtilegt með sér úr sýningum Þjóðleikhússins, krakkarnir fengu að máta hárkollur og kynnast hræðslupúkanum og handleika lærið sem Mikki stal. Bastían bæjarfógeti, eða Sigurgeir Hilmar, kom einnig og skemmti krökkunum með leik og söng.
Einu sinni í viku hittust hóparnir og fengu ýmsa fræðslu og skemmtun, alltaf var dregið úr happdrættinu og margir voru heppnir og fengu skemmtilega vinninga.
Lokahnykkurinn var svo hinn árlegi ratleikur þar sem krakkarnir hlupu úti sem inni í leit að vísbendingum og leystu þrautir Mikið fjör og allir skemmtu sér vel.
Markmið sumarlestrar er að viðhalda lestrarhæfni og örva lestur bóka og sannarlega skilaði það sér. Krakkarnir lásu samtals 150 bækur í þessum mánuði sem er mjög góður árangur.
Í barnadeildinni má sjá hversu margar bækur voru lesnar en fyrir hverja lesna bók skiluðu þau miða með nafni bókar og þess sem las. Gaman fyrir foreldra og ömmur og afa að kíkja í barnadeildina og skoða alla miðana sem hanga á snúrum við loftið í barnadeildinni og skoða afraksturinn. Hægt verður að bæta við miðum í allt sumar og því er um að gera að vera áfram dugleg að lesa.