Slökkviliðið á Selfossi fékk tvö útköll í dag sem bæði voru afturkölluð skömmu síðar.
Um kl. 14 tilkynntu nágrannar um eld í sumarbústað í landi Hallkelshóla í Grímsnesi. Nágrannarnir ruku síðan á vettvang og sáu þá hvar skíðlogaði í blómakeri á sólpalli við bústaðinn. Nágrannarnir slökktu eldinn en samkvæmt upplýsingum frá lögreglu var ekkert í pottinum nema gróðurmold frá fyrra sumri. Lítið tjón varð af þessu nema hvað nokkrar fjalir á pallinum sviðnuðu.
Á ellefta tímanum í morgun var tilkynnt um svartan reyk frá rými sem hýsir vararafstöð Heilbrigðisstofnunar Suðurlands. Þar hafði orðið skammhlaup og gosið upp svartur reykur en mökkurinn hvarf um leið og drepið var á vélinni.