Í gær lagði Golfklúbbur Selfoss í samstarfi við Sveitarfélagið Árborg skíðagöngubrautir á golfvellinum við Svarfhól.
Brautirnar liggja í tveimur lykkjum, önnur lykkjan er 1,0 km og hin 1,4 km og með því að sameina lykkjurnar tvær verður til 2,4 km löng braut. Upphafsstaður er á bílaplaninu við golfskálann en brautirnar liggja síðan um golfvöllinn í frábæru landslagi meðfram Ölfusánni.
Golfklúbbur Selfoss stendur nú í miklum framkvæmdum og er eitt af markmiðum klúbbsins að gera golfvöllinn að fallegu útivistarsvæði í framtíðinni fyrir alla íbúa þar sem hægt er að stunda golf, skíðagöngu, hlaupa, ganga, hjóla eða stunda reiðmennsku.