Skíðamaður og jeppafólk í vandræðum á Eyjafjallajökli

Snjóbíll frá Hellu á leið upp á jökulinn í dag. Ljósmynd/Landsbjörg

Síðdegis í dag voru Flugbjörgunarsveitin Hellu og Björgunarsveitin Dagrenning á Hvolsvelli kallaðar út eftir að aðstoðarbeiðni hafði borist frá hópi skíðafólks sem var á leið yfir Eyjafjallajökul að Fimmvörðuhálsi.

Einn úr hópnum treysti sér ekki til þess að halda áfram, þegar hópurinn var staddur á toppi jökulsins. Einn leiðsögumaður hélt kyrru fyrir með viðkomandi, en hópurinn hélt áfram.

Færi á jöklinum var slæmt og björgunarsveitir þurftu að leggja á jökulinn á vélsleðum og snjóbílum.

Um svipað leiti barst aðstoðarbeiðni frá fólki á svipuðum slóðum sem hafði fest tvær jeppabifreiðar. Þá var aukið í viðbragðið og kallaðir til snjóbílar úr Grímsnesi og Garðabæ ásamt björgunarsveitum af höfuðborgarsvæðinu sem voru á æfingu í nágrenninu til aðstoðar.

Upp úr klukkan sjö í kvöld komust fyrstu björgunarmenn á vélsleðum á topp Eyjafjallajökuls og var skíðamaðurinn sem þar beið aðstoðar fluttur á móti snjóbíl sem kom skammt á eftir. Hópurinn sem maðurinn tilheyrði hafði þá snúið við vegna veðurs og var tekin ákvörðun um að snjóbílarnir myndu taka allann hópinn niður.

Rétt fyrir klukkan 22 í kvöld var allur gönguhópurinn kominn í bíla á Hamragarðaheiði og verður hann fluttur í Skóga.

Jepparnir tveir voru einnig losaðir og eru á leið niður jökul ásamt björgunarsveitum.

Færi á jöklinum var slæmt. Ljósmynd/Landsbjörg
Fyrri greinHamar sýndi styrk sinn í lokin
Næsta greinBjörn sæmdur gullmerki HSK