Skildu fjórða þjófinn eftir sofandi

Lögreglan á Selfossi handtók fjóra innbrotsþjófa í uppsveitum Árnessýslu í morgun. Þrír voru í bíl á Biskupstungnabraut en sá fjórði lá sofandi á vettvangi innbrotsins.

Lögreglan á Selfossi stöðvaði för bifreiðar á Biskupstungnabraut um sjö leytið í morgun, en aksturslag hennar þótti grunsamlegt. Í bílnum voru þrír menn, sem allir voru afar óhreinir og var bíllinn sömuleiðis „haugdrullugur“ að sögn lögreglu. Ýmis varningur sem í bílnum var bar þess merki að vera ekki í eigu mannanna, en um var að ræða nokkuð magn af veiðigræjum.

Við nánari eftirgrennslan kom í ljós að mennirnir höfðu brotist inn í sumarbústað við Laugarvatnsveg. Þeir höfðu fest bílinn í drullusvaði og tekist að losa hann við illan leik, en urðu allir forugir við athæfið.

Þeir höfðu síðan lagst í rúm og sófa bústaðarins, auk þess að róta í öllu lauslegu og var aðkoman því fremur óhreinleg, að sögn lögreglu.

Lögreglu brá nokkuð í brún þegar í bústaðinn var komið, en þar lá í fleti fjórði þjófurinn. Hann hafði sofnað eftir fíkniefnaneyslu og félögum hans hafði ekki tekist að vekja hann. Auk veiðigræjanna höfðu mennirnir tekið allnokkuð af matvælum úr bústaðnum.

Mennirnir gistu fangaklefa fram eftir degi, en var sleppt í dag og telst málið upplýst.

Fyrri greinThe Young and Carefree komnir í úrslit
Næsta greinTvöfaldur sigur Flóaskóla