Áform tveggja kínverskra fyrirtækja um allt að sjö milljarða fjárfestingu í heilsuþorpi á Flúðum eru úr sögunni. Brösuglega hefur gengið að hrinda í framkvæmd ýmsum metnaðarfullum áformum í heilsuferðamennsku.
Frá árinu 2008 hefur verið stefnt að byggingu heilsuþorps á Flúðum. Fyrstu áform gerðu ráð fyrir 200 íbúðum, þjónustubyggingum, laugum, og endurhæfingaraðstöðu, þar sem á annað hundrað manns áttu að starfa. Dregið var úr áformunum eftir hrun.
Á síðasta ári var tilkynnt að kínverskir fjárfestar, CSST International, vildu lána allt að 7 milljörðum króna í verkefnið. Árni Gunnarsson, forsvarsmaður heilsuþorpsins, segir við fréttastofu RÚV að þau áform séu úr sögunni. Hann segist hafa bundið verulegar vonir við CSST og annað kínverskt félag, en skilmálar þeirra hafi verið óviðunandi.
Enn er reynt að finna fjármagn til verkefnisins.