Skimunin í Sunnulækjarskóla gekk afar vel

Mynd úr safni. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Skimunin fyrir kórónuveirunni hjá nemendum og starfsmönnum Sunnulækjarskóla á Selfossi gekk vel í dag. Um 600 manns mættu í sýnatökuna.

Að sögn Birgis Edwald, skólastjóra, er það mat starfsfólks Heilbrigðisstofnunar Suðurlands að þetta umfangsmikla verkefni hafi tekist afar vel.

Skimunin fór fram í íþróttahúsi Sunnulækjaskólar og stóð hún frá kl. 8:30 í morgun þangað til um miðjan dag. Raðir mynduðust reglulega en fólk þurfti ekki að bíða lengi og allt gekk hratt og vel fyrir sig.

Niðurstöður úr sýnatökunni munu berast nemendum og starfsmönnum á næstu 24 klukkustundum ef vel gengur. Allir þeir sem fá neikvæða niðurstöðu úr sýnatökunni eru lausir úr sóttkví.

Birgir segir að þar sem niðurstöður allra muni ekki liggja fyrir fyrr en á morgun hefur verið ákveðið að skólastarf í þeim árgöngum sem hafa verið í sóttkví hefjist ekki aftur fyrr en á mánudag 12. október.

Nemendur í sjö árgöngum skólans, auk fimmtíu starfsmanna, fóru í sóttkví síðastliðinn laugardag eftir að hafa verið útsett fyrir smiti í skólanum þann 1. október sl. Einn starfsmaður og tveir nemendur reyndust smitaðir af COVID-19 en samkvæmt upplýsingum sunnlenska.is hafa ekki greinst önnur smit innan veggja skólans í kjölfarið.

Fyrri greinAndri Dagur í Selfoss
Næsta greinHacking Hekla – sunnlenskt lausnamót á netinu