Bæjarráð Árborgar hefur skipað fólk í fjóra starfshópa vegna ýmissa framkvæmda í sveitarfélaginu.
Í fyrsta lagi hafa bæjarfulltrúarnir Gunnar Egilsson og Arna Ír Gunnarsdóttir og Eyþór Arnalds, fyrrverandi bæjarfulltrúi, verið skipuð í byggingarnefnd vegna viðbyggingar við Sundhöll Selfoss.
Ari Björn Thorarensen, bæjarfulltrúi og Íris Böðvarsdóttir, varabæjarfulltrúi hafa verið skipuð í starfshóp um Fuglafriðlandið í Flóa og í þriðja lagi hafa bæjarfulltrúarnir Gunnar Egilsson, Kjartan Björnsson og Helgi S. Haraldsson verið skipaðir í samstarfshóp vegna uppbyggingar á íþróttavallasvæðinu við Engjaveg á Selfossi.
Þá hefur Ásta Stefánsdóttir, bæjarfulltrúi og framkvæmdastjóri sveitarfélagsins verið skipuð áfram í byggingarnefnd vegna stækkunar á verknámshúsi Fjölbrautaskóla Suðurlands.