Framkvæmda- og veitustjórn Árborgar hefur samþykkt að skipa verkefnishóp um umhverfismál í sveitarfélaginu fyrir sumarið 2012.
Verkefnishópinn skipa Elfa Dögg Þórðardóttir, D-lista, Þórdís Eygló Sigurðardóttir, V-lista, Marta María Jónsdóttir og Sesselja Sumarrós Sigurðardóttir úr umhverfisdeild sveitarfélagsins.
Hópurinn mun marka áherslur í umhirðumálum sveitarfélagsins með það að leiðarljósi að Sveitarfélagið Árborg sé ávallt í fremstu röð þegar kemur að umhirðu og ásýnd umhverfisins.
Verkefnishópurinn mun starfa út kjörtímabilið.
Eggert Valur Guðmundsson, fulltrúi S-lista greiddi atkvæði gegn tillögunni. „Það er skoðun [mín] að ekki sé eðlilegt að kjörnir fulltrúar eigi sæti í starfshópi sem er ætlað það hlutverk að skilgreina einstaka verkefni eða innkaup á framkvæmdasviði.
Þegar hefur verið samþykkt fjárhags- og fjárfestingaráætlun fyrir sviðið. Það er því eðlilegt að starfsmenn sveitarfélagsins, yfirmenn hinna einstöku málaflokka, beri ábyrgð á og stjórni verkefnum og innkaupum svo að þau rúmist innan þess fjárhagsramma sem þegar hefur verið afgreiddur af stjórn tækni- og veitusviðs og bæjarstjórn,“ segir í bókun Eggerts.