Bæjarráð Árborgar samþykkti á síðasta fundi sínum að skipa vinnuhóp til að meta þörf og móta stefnu um uppbyggingu skólahúsnæðis í sveitarfélaginu til næstu ára.
Þar er bæði átt við leikskóla- og grunnskólahúsnæði.
Hópurinn skal skila áætlun um uppbyggingu þessara mannvirkja, hvenær þörf er á auknu húsnæði, þróun nemendafjölda o.s.frv. Eftir að vinnu hópsins lýkur og niðurstöður hans liggja fyrir skal vera hægt að áætla þörfina á auknu húsnæði til næstu ára og hvenær þarf að hefja byggingu þess.
Formaður fræðslunefndar, Sandra Dís Hafþórsdóttir, er formaður hópsins, en aðrir nefndarmenn eru Ásta Stefánsdóttir, Íris Böðvarsdóttir, Arna Ír Gunnarsdóttir og Már Ingólfur Másson. Þorsteinn Hjartarson, fræðslustjóri, mun starfa með hópnum. Að auki getur hópurinn kallað til eftir þörfum aðila af fræðslusviði og framkvæmda- og veitusviði.
Stefnt er að því að hópurinn skili niðurstöðum sínum til bæjarráðs fyrir 1. mars næstkomandi.