Þau sveitarfélög á Suðurlandi sem ekki flokka lífrænan heimilisúrgang nú þegar keppast nú við að koma upp búnaði til sérsöfnunar á þesskonar úrgangi.
Undirbúningur fyrir útflutning brennanlegs úrgangs frá Suðurlandi er kominn í fullan gang og aukin flokkun úrgangs hefur algjöran forgang í starfi sveitarfélaga á Suðurlandi næstu mánuði, til þess að hægt sé að lágmarka magn og kostnað vegna úrgangs sem senda þarf utan til brennslu.
Í fréttatilkynningu frá Sorpstöð Suðurlands segir að jarðgerð á lífrænum úrgangi sé tæknilega auðveld og skilar verðmætri afurð.
„Sorporkustöðvar gera þá kröfu að úrgangur sem sendur er til brennslu innihaldi lítið sem ekkert af lífrænu efni, enda inniheldur lífrænn úrgangur mikið af vatni og brennur því illa, auk þess sem honum fylgja leka- og lyktarvandamál, einkum ef úrgangurinn er geymdur lengi. Því skiptir miklu máli að lífrænum úrgangi sé safnað sérstaklega og komið í vinnslu,“ segir í tilkynningu Sorpstöðvarinnar.
Stjórn Sorpstöðvar Suðurlands vonar að íbúar, fyrirtæki og sumarhúsaeigendur á svæðinu bregðist vel við ákalli um aukna flokkun úrgangs og stuðli þannig að betri nýtingu auðlinda og lækkun kostnaðar sem annars lendir á íbúum, fyrirtækjum, sumarhúsaeigendum og sveitarfélögum.