Skipulagsmálin í gíslingu ráðherra

Meirihluti hreppsnefndar Skeiða- og Gnúpverjahrepps vill að Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra staðfesti skipulag sveitarinnar í ljósi nýfallins héraðsdóms sem heimilar sveitarfélögum að innheimta kostnað sem verður til vegna breytinga á skipulagi.

Gunnar Örn Marteinsson oddviti Skeiða- og Gnúpverjahrepps sagði í samtali við Sunnlenska að sveitarstjórn hefði alltaf verið á þeirri skoðun að heimild væri til gjaldtökunnar. „Dómarinn er sammála okkur í því að við höfum gert þetta eins og við höfðum leyfi til, við höfum ekki viðurkennt annað eða endurgreitt eitt eða neitt. Eðlilegast væri því að ráðherra staðfesti skipulagið fljótt og vel,“ segir Gunnar.

Hann telur óheppilegt ef málið dregst frekar, t.a.m. ef ráðherra kýs að áfrýja því til Hæstaréttar. „Við sjáum fljótlega hvað hún gerir en það eru hér ákveðin landsvæði og jarðir sem ekki er mögulegt að gera skipulagsbreytingar á og því eru skipulagsmálin í nokkurskonar gíslingu hjá ráðherra,“ segir Gunnar.

Nefnir Gunnar jörðina Austurhlíð sem dæmi og hluta Miðhúsa, en vegna breytinga á fyrirætlunum Landsvirkjunar á staðsetningu virkjana mun verða breyting á því hvaða landsvæði fer undir áhrifasvæði virkjananna. Gert er ráð fyrir þeim breytingum í aðalskipulagi sem sveitarfélagið hefur samþykkt en ekki hafa fengist staðfestar af ráðherra.

Fyrri greinNýtt reykhús opnar innan skamms
Næsta greinGuðmundi sagt upp