Síðan 13. júlí hefur jarðskjálftavirkni í Kötluöskjunni aukist. Yfir 80 jarðskjálftar urðu innan öskjunnar dagana 13. og 14. júlí.
Jarðskjálftavirknin skiptist í þrjár þyrpingar innan öskjunnar, ein við vatnasvið Jökulsár á Sólheimasandi, önnur við vatansvið Emstruár og sú síðasta við vatnasvið Múlakvíslar.
Síðan skjálftavirknin jókst hefur bæði rafleiðni og vatnshæð aukist í Múlakvísl. Rafleiðni í Jökulsá á Sólheimasandi er enn lág og ekki eru farin að sjást merki um aukna jarðhitavirkni þar.
Alla jafna er mesta jarðskjálftavirknin í Kötluöskjunni á sumrin, oftast mest í júlímánuði og lekar úr jarðhitakötlum innan öskjunnar eru þá tíðir.
Í tilkynningu frá Veðurstofunni segir að starfsmenn hennar muni fylgjast náið með þróuninni næstu sólarhringa.