Bæjaryfirvöld í Árborg kanna hvort hagkvæmt geri verið að kaupa húsnæði á Selfossi sem nýtt er fyrir þjónustu við fatlaða.
Húsnæðið sem um ræðir eru íbúðarhúsnæði og vinnustofa í eigu ríkisins. Að sögn Ástu Stefánsdóttur, framkvæmdastjóra Árborgar, þarf að fá skýrari mynd af tekjum af viðkomandi eignum upp á að þær geti staðið undir yfirtöku og rekstri.
Ásta segir reiknað með að verð á húsnæðinu miðist við almennt verð á fasteignamarkaði.
Sveitarfélög tóku yfir málaflokk fatlaðra um síðustu áramót en ríkið á enn mikið af eignum sem tengjast þjónustu við fatlaða. Ásta segir að til álita komi að aðrir en opinberir aðilar séu eigendur húsnæðisins. Þá sé einnig til skoðunar að sveitarfélög komi sér saman um stofnun sérstaks fasteignafélags um rekstur viðkomandi eigna.