Alþingi samþykkti í gær þingsályktunartillögu um að samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra láti meta kostnað og kosti þess að gera göngubrú yfir Ölfusá við Selfoss.
Í greinargerð með þingsályktuninni segir að með síaukinni umferð um Ölfusárbrú, ekki hvað síst þungaflutningum, sé ljóst að þrengt hafi verið að gangandi umferð á brúnni. Margsinnis hefur verið ekið á handrið sem aðskilur gangandi vegfarendur og ökutæki á brúnni en hingað til hafa ekki orðið slys á fólki í þessum óhöppum.
,,Þar sem ný brú við Laugardæli er ekki væntanleg allra næstu ár má ætla að göngubrú yfir Ölfusá við Selfoss sé brýnt verkefni til að fyrirbyggja slysahættu og greiða fyrir umferð um þennan fjölfarna kafla þjóðvegarins,” segir í ályktuninni.
Er lagt til að úttekt á framkvæmdinni og kostnaðarmat liggi fyrir 1. febrúar 2012.
Flutningsmenn tillögunnar eru Unnur Brá Konráðsdóttir, Árni Johnsen, Ragnheiður E. Árnadóttir, Björgvin G. Sigurðsson, Oddný G. Harðardóttir, Róbert Marshall, Eygló Harðardóttir, Birgir Þórarinsson, Margrét Tryggvadóttir og Jórunn Einarsdóttir.