Sveitarstjórn Mýrdalshrepps hefur samþykkt að leggja fjórar milljónir króna til óstofnaðs hlutafélags um það verkefni að leggja ljósleiðara á alla sveitabæi í sveitarfélaginu.
Steinþór Vigfússon hótelstjóri á Hótel Dyrhólaey sendi erindið á sveitarstjórn þar sem óskað var eftir því að sveitarstjórn leggi verkefninu lið með 4 milljón króna framlagi, annað hvort í formi aðgangskaupa að kerfinu fyrir skrifstofu og skóla, eða í formi hlutafjár. Skilyrði Mýrdalshrepps fyrir samþykki upphæðarinnar er að það takist að full fjármagna verkefnið að öðru leyti og að almenn þátttaka verði í verkefninu í Mýrdalshreppi.
Steinþór sagði í samtali við Sunnlenska að verkefnið væri á fyrstu metrunum, verið væri að kanna kostnað og áhuga. Ljóst sé að um afar kostnaðarsamt verkefni sé að ræða. Hinsvegar leggðu margir áherslu á að bæta netaðgang, ekki síst aðilar í ferðaþjónustu.
„Á góðum degi höfum við náð um 1 megabita sambandi hér með ADSL, sem er auðvitað mjög lítið,“ sagði Steinþór. „Slíkt var vissulega í lagi hér fyrir nokkrum árum þegar viðskiptavinir notuðustu kannski við eina tölvu frammi, en nú eru allir komnir með netið í handtækin og kalla eftir háhraðaneti inni á herbergjunum,“ sagði hann.