Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra, segir að verið sé að skoða hvernig bregðast skuli við álagi á ýmsar stofnanir á Suðurlandi, þar á meðal löggæslu og heilbrigðisþjónustu, vegna aukins fjölda ferðamanna.
Forsætisráðherra ræddi um málið í Kastljósi í kvöld.
Hann sagði að ekki væri of seint að bregðast við fyrir sumarið. Frá 2009 hafi menn kljást við það að byggja það upp á sama tíma og mikill, vöxtur hafi verið í ferðaþjónustu sem reyni á innviði í löggæslu, heilbrigðisþjónustu, samgöngum og fleiru. Á sama tíma og bætt hafi verið í það sem hefði verið skorið niður hefði þurft að fara í aukningu.
Varðandi Heilbrigðisstofnun Suðurlands hefðu framlögin verið aukin um 30 prósent sem væri um sex prósenta raunaukning. Það hefði verið bætt við stöðugildum til að sinna vaxandi fjölda ferðamanna. Það væri augljóslega ekki nóg.
Þá hefði Stjórnstöð ferðamála komið með tillögur er sneru að löggæslu fyrir sumarið sem verið væri að skoða. Menn hefðu reynt að bregðast við þegar bráðavandi kæmi upp eins og í Reynisfjöru. Í tillögum Stjórnstöðvar ferðamála væri talað um að bæta við stöðugildum á Suðurlandi í sumar.