Gísli Guðmundsson, fyrrverandi stjórnarformaður og aðaleigandi Bifreiða og landbúnaðarvéla, skoðar nú vatnsútflutning frá Þorlákshöfn.
Fyrirtæki á vegum Gísla keypti gömlu bræðsluna í Þorlákshöfn og hefur verið að undirbúa svæðið með það í huga að það nýtist áformum um vatnsútflutning. Gísli seldi B&L árið 2007 og var söluverðið talið nema um 3 milljörðum króna.
Fyrir skömmu keypti Gísli sjávarjörðina Nes í Selvogi en hún hafði verið til sölu um nokkurn tíma. Um er að ræða 2.440 hektara jörð í Ölfshreppi, austanmegin við Strandakirkju.
Jörðin er talin bjóða upp á mikla möguleika og horfa menn þar einkum til vatnsuppspretta á jörðinni. Ásett verð var 175 milljónir króna. Engin húsakostur fylgdi jörðinni en landið er afgirt. Um 36 hektarar eru skráðir sem ræktað land. Þá fylgdi með forkaupsréttur að jörðinni Nessandi sem er 2.100 hektarar að stærð og liggur samsíða Nesi. Sú jörð er í ríkiseigu.
Jón Ólafsson rekur sem kunnugt er vatnsverksmiðjuna Icelandic Waters að Hlíðarenda í Ölfusi, skammt frá Þorlákshöfn. Báðar jarðirnar nýta vatn úr sömu vatnslindum.