Landsvirkjun undirbýr nú hugsanlega vetnisvinnslu og til að byrja með telur fyrirtækið hentugt að hefja slíka vinnslu við Ljósafossstöð.
Landsvirkjun hefur kynnt þann möguleika fyrir sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps. „Við Ljósafoss yrði framleitt svokallað grænt eða hreint vetni, sem fæst með rafgreiningu vatns með endurnýjanlegum orkugjöfum,“ segir Auður Nanna Baldvinsdóttir, viðskiptaþróunarstjóri hjá Landsvirkjun. „Slík umhverfisvæn framleiðsla á vetni er enn fátíð í heiminum, en víða er vetni unnið úr jarðgasi og markar umtalsverð kolefnisspor.“
Starfsemin við Ljósafoss myndi rúmast í tæplega 700 fermetra byggingu, þar sem hægt væri að auka við framleiðslu eftir því sem eftirspurn yrði meiri, en sem dæmi gæti rafgreinir í fullri stærð notað allt að 10 MW af raforku til vetnisframleiðslu. Slík framleiðsla myndi nægja til að knýja bílaflota sem nemur a.m.k. öllum vögnum Strætó.
Eldsneyti framtíðar
Auður Nanna segir að vetni, rafhlöður og metan hafi mismunandi eiginleika, en þarfir notenda skipti mestu máli í vali á orkugjafa. „Vetnið telst auðvelt í vinnslu miðað við margt annað eldsneyti og starfsfólk Landsvirkjunar hefur þegar þá grunnþekkingu sem þarf til framleiðslunnar, þótt frekari þjálfunar sé þörf,“ segir hún.
Við vinnslu vetnis knýr raforka svokallaðan rafgreini, sem klýfur vatn í frumefni sín, vetni og súrefni. Fjölmargir kostir fylgja vetni sem orkugjafa. Það er ekki skaðlegt fyrir umhverfi og náttúru og veldur ekki mengun. Það er léttara en andrúmsloft og rýkur því mjög hratt upp ef leki á sér stað. Þrátt fyrir fjölmarga kosti hefur vetnið sína galla. Það er plássfrekt og kostnaðarsamt í geymslu og flutningi. Þá er vetnið vissulega eld- og sprengifim gastegund, svo umgengni öll verður að lúta sömu öryggiskröfum og olíu- og bensínstöðvar. Vetnisgeymar eru vel varðir fyrir hnjaski og um vetnisflutninga gilda sömu reglur og um olíuflutningabíla, þ.e. strangar og viðurkenndar öryggisreglur.
Auður Nanna segir að mikill kostur á vetnisvinnslu sé sú staðreynd, að auðvelt sé að stýra framleiðslunni. „Rafgreinar þola vel að kveikt sé og slökkt á vinnslunni í samræmi við eftirspurn, svo framleiðandinn getur hagað henni eftir þörfum markaðarins hverju sinni.“
Þörf á að breyta aðalskipulafi við Ljósafossstöð
Kynning Landsvirkjunar fyrir sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps á fyrirhugaðri vetnisvinnslu við Ljósafossstöð var fyrsta skrefið á leið að vetnisstöð, að sögn Auðar Nönnu. Samkvæmt gildandi aðalskipulagi Grímsnes- og Grafningshrepps 2008-2020 er landnotkun á fyrirhuguðu svæði t.d. sýnd sem íbúðabyggð. Eigi vetnisstöðin að rísa þar þarf lóðin undir vinnsluna að vera skilgreind sem iðnaðarsvæði.