Í morgun tóku elstu nemendurnir á leikskólanum Undralandi og í 1. bekk Flúðaskóla fyrstu skóflustunguna að viðbyggingu íþróttahússins á Flúðum.
Krakkarnir tóku sig vel út með skóflurnar á lofti og tóku rösklega til hendinni.
Samið hefur verið við Fögrusteina ehf. um jarðvinnu og Límtré-Vírnet mun framleiða burðarvirki og yleiningar.
Um er að ræða 730 fermetra stækkun á íþróttahúsinu ásamt 180 fermetra áhaldageymslu en smíðinni á að ljúka á næsta ári. Áætlaður heildarkostnaður við verkið er um 150 milljónir króna.