Skógasafni færður garðbekkur úr reynivið frá Múlakoti

Frá afhendingu bekkjarins síðastliðinn föstudag. Ljósmynd/VisitHvolsvollur.is

Síðastliðinn föstudag hittist lítill hópur í Skógasafni en tilefnið var afhending gjafar til Skógasafns frá Skúla Jónssyni og Sjálfseignarstofnuninni um Gamla bæinn í Múlakoti.

Gjöfin var garðbekkur og ekkert venjulegur bekkur. Efniviðurinn er reyniviður, vaxinn í Múlakoti, önnur kynslóð frá lítilli reyniplöntu sem Eyjólfur Þorleifsson, sonur Þuríðar og Þorleifs í Múlakoti, sótti í Nauthúsagil árið 1897 og gaf Guðbjörgu systur sinni.

Sá sem felldi tréð var Björgvin Eggertsson, kennari við Garðyrkjuskólann á Reykjum og meistari í trjáfellingum. Hönnuður og smiður bekkjarins er Skúli Jónsson fyrrverandi bóndi í Þykkvabæ í Landbroti.

Við afhendinguna komu saman Skúli Jónsson, Stefán Guðbergsson bóndi í Múlakoti, formaður stjórnar Sjálfseignarstofnunarinnar, Anton Kári Halldórsson oddviti sveitarstjórnar í Rangárþingi eystra og Andri Guðmundsson forstöðumaður Skógasafns

Vottur að þessari afhendingu var Héðinn Bjarni Antonsson fulltrúi nýjustu kynslóðar safngesta.

Héðinn Bjarni Antonsson, fulltrúi nýjustu kynslóðar safngesta, prófar bekkinn. Ljósmynd/VisitHvolsvollur.is
Fyrri greinStórvirki um sunnlenska atvinnu- og verslunarsögu
Næsta greinFámennasta HSK þingið í 61 ár