EJ Hotels, sem rekur þrjú hótel undir Eyjafjöllum, hefur keypt Skógaskóla af íslenska ríkinu og áformar að hefja þar rekstur á gistiþjónustu næsta vor.
Morgunblaðið greinir frá þessu og hefur eftir Einar Þór Jóhannssyni, einum eigenda félagsins, að áformað sé að reka gistingu með morgunmat í Skógaskóla.
Einar segir að lagfæra þurfi húsið en það sé í þokkalegu standi, þar sé engan raka að finna og gluggar séu meira og minna heilir þótt skipta þurfi um gler. Kaupverð hússins var 300 milljónir króna.
Skógaskóli var tekinn í notkun árið 1949 en skólahald var aflagt 1999 og húsið hefur að mestu staðið autt síðan.
EJ Hotels rekur Hótel Önnu á Moldnúpi og tvö hótel í Skógum, Hótel Skógá og Hótel Skógafoss.