Skógræktarfélag Hveragerðis hlaut umhverfisverðlaun Hveragerðisbæjar árið 2015 sem afhent voru af forseta Íslands, hr. Ólafi Ragnar Grímssyni, við hátíðlega athöfn á sumardaginn fyrsta.
Tók formaður félagsins Eyþór H. Ólafsson og elsti stjórnarmaðurinn Laufey S. Valdimarsdóttir, við viðurkenningunni fyrir hönd félagsins.
Skógræktarfélag Hveragerðis var stofnað í ársbyrjun 1950. Formaður fyrstu árin var Ólafur Steinsson og í formannstíð hans var byrjað að rækta örfoka land undir Hamrinum en þar eru ýmsir skemmtilegir trjálundir frá þeim tíma. Sigurður Jakobsson var formaður frá 1980 en þá var byrjað að að planta í Fossflötina þar sem nú er Lystigarður bæjarins. Síðari formenn félagsins eins og Brynhildur Jónsdóttir og Ingimar Magnússon hafa stýrt þessu góða starfi áfram og árangurinn má sjá á Vorsabæjarvöllum þar sem markviss útplöntun hefur átt sér stað á síðustu áratugum og útivistarskógur er að líta dagsins ljós.
Skógræktarfélag Hveragerðis hefur í áratugi unnið gjöfult og gott starf í þágu bæjarbúa. Hafa félagsmenn plantað þúsundum plantna í landi bæjarins og skapað útivistarparadísir víða í bænum.