Skógræktin varar við því að trjágróður sem skýlir ferðamannastaðnum við Skógafoss fyrir sterkum suðvestanáttum og vegfarendum fyrir sandfoki verði skertur.
Jafnframt mælir Skógræktin með því að stuðlað verði að útbreiðslu birkis við Skógafoss, meðal annars til varnar áföllum vegna náttúruhamfara.
Skógræktin hefur sent Umhverfisstofnun umsögn um stjórnunar- og verndaráætlun fyrir náttúruvættið Skógafoss. Þar er bent á það gagn sem núverandi trjágróður í nágrenni fossins hefur á þessum fjölmenna ferðamannastað. Einnig er bent á hvernig stuðla má að útbreiðslu birkis og annars staðargróðurs sem veita muni skjól og draga úr þeirri ógn sem svæðinu stafar af eldgosum og öðrum náttúruöflum.
Í tilkynningu frá Skógræktinni segir að mikilvægt sé að tryggja gott samstarf hlutaðeigandi aðila um umhirðu skóglendis innan friðlýstra svæða. Skógræktin sé alltaf reiðubúin í samstarf og ráðleggingar um málefni sem tengjast skógrækt og skógvernd og óskar eftir góðu samstarfi við Umhverfisstofnun um að vernda og stuðla enn frekar að vexti og útbreiðslu birkiskóganna þar sem það á við.