Þótt gróðursetning trjáplantna sem ræktaðar eru í gróðrarstöðvum sé algengasta aðferðin við skógrækt hér á landi er einnig hægt að sá til skóga.
Sáning á birki hefur verið stunduð hér á landi frá upphafi Skógræktar ríkisins og má víða finna trjálundi sem sprottnir eru upp af fræi, s.s. Hákonarlund í Haukadal og Gunnlaugsskóg á Rangárvöllum. Einnig er mikið af sjálfsánum birkiskógum í löndum Skógræktar ríkisins og víða um land.
Lítið hefur verið notast við beinar sáningar í skógrækt, þó má finna dæmi þess. Í nóvember 2004 sáði Hreinn Óskarsson, skógarvörður á Suðurlandi, hálfu kílói af stafafuru og hálfu kílói af birkifræi í um 1 ha spildu í Mosfelli í Grímsnesi. Um var að ræða framræst land norðan við Einbúa í Mosfelli sem var tætt vorið 2004.
Í dag er að vaxa upp blandskógur af stafafuru og birki á svæðinu. Einnig er töluvert af víði og viðju að spretta upp. Hreinn segir á vef Skógræktar ríkisins að beinsáning sé því vænleg aðferð sem stunda mætti í meira mæli hér á landi.