Vegna veðurs fellur skólahald niður víðast hvar á Suðurlandi í dag, bæði í leik- og grunnskólum og Fjölbrautaskóla Suðurlands.
Skólahald fellur niður í Grunnskólanum í Þorlákshöfn, Grunnskólanum í Hveragerði, öllum leik- og grunnskólum í Árborg, Flóaskóla, Kerhólskóla í Grímsnesi, leik- og grunnskólum Bláskógabyggðar, leikskólanum Undralandi á Flúðum og Flúðaskóla, leikskólanum Leikholti í Brautarholti og Þjórsárskóla, Laugalandsskóla og Grunnskólanum Hellu. Leikskólinn Heklukoti verður lokaður fram að hádegi í það minnsta. Í dag er starfsdagur í Hvolsskóla og leikskólanum Öldunni á Hvolsvelli og engin börn í skólunum.
Rauð viðvörun er í gildi á Suðurlandi frá klukkan 8 til 13. Sunnan og suðvestan 25-33 m/s og hviður staðbundið yfir 45 m/s. Foktjón er mjög líklegt og það getur verið hættulegt að vera á ferð utandyra.