Skólameistaraskipti í FSu

Soffía tekur við lyklinum úr hendi Olgu Lísu. Ljósmynd/Hollvarðasamtök FSu

Skólameistaraskipti voru í Fjölbrautaskóla Suðurlands í dag en þá afhenti Olga Lísa Garðarsdóttir, fráfarandi skólameistari, Soffíu Sveinsdóttur „lykilinn“ að skólanum.

Áður en táknræn lyklaskipti fóru fram sagði Olga Lísa nokkur orð um skólastarfið og bauð Soffíu velkomna. Þeir Sigurður Sigursveinsson og Örlygur Karlsson, fyrrum skólameistarar, minntust Hjartar Þórarinssonar, fyrrverandi formanns skólanefndar FSu og síðar formanns Hollvarðasamtaka FSu er lést 23. júlí síðastliðinn. Vera Ósk Valgarðsdóttir formaður Hollvarðasamtakanna ávarpaði viðstadda og Anna Sigríður Árnadóttir ritari samtakanna gaf Soffíu fagra krús frá Hollvörðum. Soffía þakkaði Olgu Lísu að skólameistaraskiptum loknum en Olga Lísa afhenti henni lykil, sem var hannaður og gerður í FAB-Labi Selfoss sem FSu sér um.

Olga Lísa var skipuð skólameistari árið 2012 og var sú fimmta í sögu skólans til þess að gegna stöðunni. Soffía var í vor skipuð í stöðuna til fimm ára. Hún starfaði um árabil sem kennari og síðar IB stallari við Menntaskólann við Hamrahlíð en síðustu tvö ár hefur hún starfað sem sviðsstjóri vettvangseftirlits hjá Matvælastofnun frá árinu 2022.

Fyrri greinHvalurinn laus úr prísundinni
Næsta greinSelfoss fékk Árbæ í undanúrslitum