Í morgun hófst skólahald í nýrri og glæsilegri skólabyggingu barnaskólans á Stokkseyri.
Börn í 1. til 6. bekk munu verða við nám í skólanum í vetur, og er það breyting frá því sem áður hefur verið, þar sem 6. bekkingar hafa sótt skóla á Eyrarbakka til þessa.
Arndís Harpa Einarsdóttir, skólastjóri Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri, setti skólann í morgun að viðstöddum starfsmönnum, nemendum og foreldrum skólabarna.
Við skólann stunda nú 150 börn nám, af þeim eru um 100 í skólanum á Stokkseyri og 50 á Eyrarbakka. Fram kom í máli Arndísar að heldur fjölgar í yngri árgögnum en fækkar í þeim eldri.
Nýja skólahúsnæðið er hið glæsilegasta í alla staði og verður gestum og gangandi boðið að skoða það við vígslu þess sem fram mun fara á næstu dögum.